Forsaga verkefnis og hugmyndafræði

Sú stefnumótun sem lögð er fram í Aðalnámskrá framhaldsskólanna frá árinu 2011 gerir ráð fyrir því að á öllum skólastigum sé hugað að jafnrétti, jafnréttisfræðslu til nemenda og starfsfólks, en jafnframt að skólabragurinn sé þannig að hugað sé að jafnrétti, t.d. þegar kemur að félagslífi nemenda. Jafnréttisfræðsla á því að vera á ábyrgð alls starfsfólks skólans og á hún ekki standa og falla með einstaka áhugasömum kennurum eða afmarkast við einstaka áfanga.

Það er út frá þessum hugleiðingum sem verkefnið Sjálfsmatskvarði um jafnréttisfræðslu í framhaldsskóla, sprettur. Umsjónarmenn fóru að velta því fyrir sér hvernig hægt væri að gefa grunnþættinum jafnrétti, byr undir báða vængi innan framhaldsskólans og fá alla aðila skólans til að gera átak í jafnréttismálum, hvern á sínu sviði. Góð reynsla er í framhaldsskólum af sjálfsmatskvarða Heilsueflandi framhaldsskóla sem veitir hvatningu, aðhald sem og tól til að meta þætti er varða lýðheilsu. Því var þróaður sambærilegur sjálfsmatskvarða sem leggur mat á jafnrétti í framhaldsskólastarfi og jafnframt var þróaður matskvarði sem hver og einn kennari getur notað til að leggja mat á eigin jafnréttisnálgun. Kennarakvarðann nota kennarar til að ígrunda markvisst nálgun á grunnþáttinn jafnrétti í áföngum sem þeir kenna og leggja mat á stöðu hans. Fyrirkomulagið færir verkefnið nær kennurum ásamt því að halda jafnréttisumræðu á lofti og eykur þannig líkur á því að mismunandi jafnréttissjónarmið komi fram í kennslunni.

Í verkefninu er gert ráð fyrir að kennarar meti sína áfanga einu sinni á önn eða einu sinni á ári og skili inn til jafnréttisteymis staðfestingu á að þeir hafi lokið því. Kennarar hittist síðan í þverfaglegum teymum þar sem hver kennari fer yfir niðurstöður sínar og leitast eftir áliti og ábendingum samstarfsmanna sinna. Hér er því verið að byggja upp og byggja á þeim mannauð sem er til í skólunum. Nýrri rannsóknir hafa sýnt að þegar kennarar  ígrunda kennslu sína á markvissan hátt og ekki síst í hópvinnu, á sér stað mjög mikil endurmenntun, oft meiri en á mörgum námskeiðum (sjá Dylan Wiliam í greininni Changing Classroom Practice (Educational Leadership, des 2007/jan 2008, vol. 65, nr. 4). Hér er því gengið út frá þeirri hugmyndafræði að markviss vinna hóps í átt að ákveðnu sameiginlegu markmiði nýtist mörgum kennurum og skólastarfinu í heild betur en námskeið um jafnréttisfræðslu.

Í lok annarinnar vinnur jafnréttisteymi úr öllum upplýsingum og metur skólastarfið í heild á sjálfsmatskvarða skólans. 

Verkefnið hlaut styrk frá Framkvæmdasjóði jafnréttismála árið 2017.