Leiðbeiningar

Í þessu verkefni eru tveir sjálfsmatskvarðar; annars vegar sjálfsmatskvarði skóla og hins vegar sjálfsmatskvarði kennara. Kvarðarnir eru verkfæri fyrir skóla til að færa jafnréttismál markvisst og meðvitað upp á yfirborðið. Ýmsar leiðir eru til að nota kvarðana en við mælum með því að nota þá samhliða virkri jafnréttisstefnu skólans. Við leggjum til ákveðið vinnuferli sem hefst á því að hver og einn skóli metur stöðu sína og kennarar skólans meta sjálfa sig. Því næst setur skólinn sér markmið og vinnur markvisst að því að bæta stöðu jafnréttismála. Eftir tímabilið sé kvarðinn aftur nýttur til mats. Best er að jafnréttisteymi skóla taki að sér að sjá um fyrirlögn og úrvinnslu. Jafnréttisteymi getur verið myndað af jafnréttisfulltrúa og fulltrúum frá nemendum, kennurum/starfsmönnum og stjórnendum. 

Hugmynd að vinnuferli:

  1. Teymið byrjar á að kynna sér kvarðann og kynna hann fyrir öðrum starfsmönnum t.d. á kennarafundi, þar sem farið er yfir efnisþætti og tekin eru dæmi úr báðum kvörðunum. Hér er líka tekin umræða um jafnrétti, farið yfir helstu hugtök og rætt um hvers vegna tekið er þátt í verkefninu, markmið og tilgangur. Sjálfsmatskvarði kennara er kynntur og kennarar beðnir um að meta sína áfanga fyrir ákveðna dagsetningu.
  2. Þegar kennarar hafa metið sjálfa sig metur jafnréttisteymi skólann út frá sjálfsmatskvarða skóla. Til þessa að geta klárað matið þurfa að liggja fyrir upplýsingar um hve stórt hlutfall kennara hefur metið sína áfanga með sjálfsmatskvarða kennara. Mikilvægt er að vera heiðarlegur við matið og skrá hjá sér hugmyndir sem kvikna um hvernig hægt sé að bæta stöðuna. Ef upp kemur vafi um hvernig á að meta viss atriði er hægt að miða við þumalfingursregluna að ef 80% eða meira af kennurum tekur þátt þá fær skólinn gull, ef 70-79% tekur þátt þá silfur og ef 60-69% tekur þátt fær skólinn brons
  3. Jafnréttisteymi setur skólanum markmið fyrir tímabilið (önnina eða skólaárið) og leggur fram aðgerðaáætlun til að ná þeim markmiðum. Mikilvægt er að kynna markmið og áætlun fyrir öllum aðilum skólans.
  4. Við lok tímabilsins er staðan tekin á ný – bæði af jafnréttisteymi, kennurum og nemendum, farið yfir þann árangur sem hefur náðst og rætt um möguleg sóknarfæri til að auka jafnrétti í skólanum. Markmið fyrir næsta skólaár sett.