Um teymið

Vibeke Svala Kristinsdóttir (f. 1975) er framhaldsskólakennari og starfar við Framhaldsskólann í Mosfellsbæ. Hún er með BA-gráðu í sálfræði frá Háskóla Íslands og kennsluréttindi fyrir framhaldsskóla. Þá er hún með MA-gráðu í uppeldis- og menntunarfræðum frá sama skóla. Einnig hefur hún klárað áfanga í hagnýtri jafnréttisfræði innan stjórnmálafræðideildar Háskóla Íslands. Hún hefur þróað og kennt áfanga í lífsleikni, íþróttasálfræði og kynjafræði í skólanum ásamt því að kenna sálfræði og félagsfræði. Samhliða kennslu þróaði hún og vann við nýja nálgun í umsjónarkennslu eldri nemenda ásamt Mörtu Daníelsdóttur árin 2012-2016. V. Svala uppgötvaði óvænt að hún væri femínisti þegar hún var um þrítugt og hafa jafnréttismál verið hennar helsta hugarfóstur síðan hún lauk kennsluréttindum árið 2011.

Jóna Svandís Þorvaldsdóttir (f. 1986) er framhaldsskólakennari og hefur starfað við Framhaldsskólann í Mosfellsbæ frá árinu 2011. Hún hefur starfað með unglingum síðan árið 2008 á sviði menntunar, atvinnu, frítíma og sjálfboðastarfa. Hún er með BA-gráðu í íslensku og diploma í kennsluréttindum frá Háskóla Íslands. Jafnframt er hún með M.Ed.-gráðu í menntunarfræði með áherslu á lífsleikni og jafnrétti og diploma á meistarastigi í hagnýtum jafnréttisfræðum. Hún hefur komið að þróun íslenskuáfanga skólans frá því að hún hóf störf þar ásamt því að þróa lífsleikniáfanga í skólanum frá grunni í samstarfi við Vibeke Svölu. Einnig hefur hún verið tengiliður við nemendafélag skólans um árabil. Jóna hefur alltaf haft sérstakan áhuga á málefnum stúlkna og velferð þeirra en fór að hafa sérstakan áhuga á jafnréttismálum í meistaranámi sínu. Hún hefur velt jafnrétti sem grunnþætti menntunar mikið fyrir sér og það var leit hennar að leið til að auðvelda skólum að vinna með jafnréttismál sem var kveikjan að þróun sjálfsmatskvarða.

Björk Ingadóttir – (f. 1976) er framhaldsskólakennari og hefur starfað við Framhaldsskólann í Mosfellsbæ frá árinu 2012 og jafnréttisfulltrúi frá árinu 2016, ásamt því sem hún er sjálfboðaliði hjá Rauða krossi Íslands.  Hún er tækniteiknari og enskufræðingur, ásamt því sem hún lærði þýsku við Háskóla Íslands. Hún með jafnframt með gráðu í þýðingarfræði og vann við þýðingar í 7 ár. Hún lauk kennsluréttindanámi frá Háskóla Íslands árið 2011. Björk er mikil áhugamanneskja um sjálfsrækt og hefur lokið núvitundarnámskeiði á háskólastigi. Björk hefur komið að þróun enskuáfanga frá því að hún hóf störf við skólann, og bauð m.a. upp á áfanga sem hún kallaði “Beyoncé: black history”, þar sem áherslan var á réttindabaráttu Bandaríkjamanna af afrískum uppruna og femínisma.  Jafnréttismál, og þá sérstaklega málefni stúlkna, hafa verið Björk mikilvæg síðan hún var sjálf í grunnskóla. Frá því að hún hóf störf sem framhaldsskólakennari hefur hún lagt ríka áherslu á jafnrétti í kennslustofunni og er vinnan við sjálfsmatskvarðann hennar leið til þess að huga að eigin símenntun, sem og að auðvelda öðrum kennurum að leggja mat á grunnþáttinn jafnrétti í sinni kennslustofu.